Fréttir
19.05.2020 Cava vs. Prosecco
 
Nú er sko tíminn til að skála. Útskrift úr skólum og nánast samfelldur bjartur dagur framundan í tvo mánuði, eftir þrengingar undanfarinna vikna. Á morgun, fimmtudag, verður sérstök ástæða til að fylgjast með því hvernig loftbólurnar stíga tignarlega til himins í freyðivínsglösunum. Þær sjást reyndar ekki síðasta spölinn og aldrei snúa þær aftur.

Einhverra hluta vegna hafa vinsældir Cava-freyðivíns frá Spáni dalað, á meðan Prosecco hefur þotið upp vinsældalista Vínbúðanna. Hér fylgir einfaldur en ugglaust umdeildur samanburður.


Cava er gert með klassísku Kampavínsaðferðinni, þar sem gosið í víninu myndast í flöskunni. Vínið er látið liggja a.m.k. 9 mánuði á botnfallinu sem myndast við seinni gerjunina, oft í kjallara/helli {== Cava á spænsku}. Tíminn í flöskunni þykir gefa víninu aukna dýpt og til að mega kalla sig Reserva þurfa Köfur [ft. Cava?] að vera a.m.k. 15 mánuði í flösku. Gran Reservur og fínni Kampavín eru látin hvílast og safna kröftum enn lengur. Oftast eru notaðar þrjár þrúgnategundir í Cava: Macabeo, Xarel·lo og Parellada. Þrýstingur á Köfum og Kampavíni er nokkuð hár [~6bar = 85psi {fyrir þá sem vinna á dekkja-verkstæðum}]. Þess vegna er flöskurnar styrktar, m.a. með þykkum rúnuðum botni {Beyoncé ætti að þola talsverðan þrýsting?}.

Prosecco er framleitt á ódýrari og fljótlegri hátt í þrýstitanki með aðferð sem kennd er við Charmat. Ítalinn Martinotti fékk einkaleyfi á aðferðinni 1895, sem Frakkinn Charmat endurbætti og fékk einkaleyfi kennt við sig 12 árum síðar. Lágmarkstími í tanknum eru 30 dagar en betri tegundir dvelja í tanknum í nokkra mánuði. Vegna styttri tíma á botnfallinu eru Prosecco vín frísklegri og einfaldari en Cava, sem hentar flestum ágætlega, sérstaklega á sumrin. Loftbólurnar í Prosecco eru stærri í glasinu og láta minna fyrir sér fara í munnholinu þar sem þrýstingurinn á víninu er u.þ.b. helmingi lægri en á Cava [2-4bar].
Prosecco er því eins konar lágfreyðandi vín, nefnt eftir þorpinu Prosecco, framleitt úr þrúgunni Prosecco með ítalskri aðferð kenndri við Frakka.


 Veldu síðu: <<  Til baka  10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20  Næsta síða  >>