Fréttir
06.03.2019 Opnunarteiti Unu útgáfuhúss í Mengi
 
Una útgáfuhús blæs til opnunarhátíðar í Mengi miðvikudaginn 6. marz kl. 20. Stofnun bókaforlagsins verður fagnað og fyrstu útgáfu þess:

Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson.

Í bókinni segir frá dvöl Hallgríms á Spáni í lok fjórða áratugarins. Þar barðist hann með Alþjóðasveitum gegn fasistum í spænska borgarastríðinu. Bókin kom fyrst út árið 1941 en hefur verið ófáanleg um árabil. Bókin kemur nú út með ítarlegum eftirmála um ævi og störf Hallgríms.


Dagskrá kvöldsins:
Örvar Smárason (Múm, FM Belfast) leikur tónlist af sólóplötu sinni, leikkonan Þuríður Blær leikles brot úr Undir fána lýðveldisins og skáldavinir Unu lesa úr eigin verkum: Elísabet Jökulsdóttir, Jónas Reynir Gunnarsson, Júlía Margrét Einarsdóttir og Brynja Hjálmsdóttir.

Boðið verður upp á fljótandi veigar, þar á meðal bjór í boði KEX Brewing og spænsk vín frá okkur hjá Beri.
Vínin eru öll rammspænsk [en hvorki Rammstænsk né Hatursfull {ekki víst að Júróvísjónskar tilvísanir geri lukku í þessu samhengi}], gerð úr spænskum þrúgum af spænskri ástríðu.
1) Godelia Blanco er kraftmikið en mjúkt hvítvín úr Godello og Doña Blanca [fölu frúnni?].
2) Finca Azaya rauðvín frá Toro sem bruggað er úr Tempranillo, eðalþjóðarþrúgu Spánverja.
3) Dehesa La Granja er frá Zamora í nágrenni Toro, gert úr Tempranillo af helzta meistara og frumkvöðli spænskrar víngerðar, Alejandro Fernandez Pesquera-föður. Alexander og fjölskylda hans framleiða fjölda rauðvína víðsvegar um Spán og öll úr Tempranillo {nema hvað}.

Undir fána lýðveldisins verður á sérstöku tilboðsverði: 3200 kr.

Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn.


 Veldu síðu: <<  Til baka  39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49  Næsta síða  >>