Fréttir
11.11.2017 Ber hefur innflutning á vínum frá Birgit Eichinger í Austurríki
 
Í lok árs 2016 óskaði ÁTVR eftir tilnefningu vína frá Austurríki til að auka vöruval Vínbúðanna.
Fulltrúar Bers gerðu sér því ferð í austurrísku deildina á ProWein í vor. Með vasabók Hugh Johnson að leiðarljósi prófuðum við flest vínin frá beztu víngerðum Austurríkis sem boðið var uppá á sýningunni {tala um að fórna sér}.
Birgit Eichinger heillaði okkur bæði með skemmtilegu viðmóti og aðlaðandi vínum. Bersdóttir, sem þykir kröfuhörð á hvítvín, kolféll fyrir vínunum hverju af öðru.

Við enduðum á að smakka alla línuna.
Græna vettlinga [Grüner Veltliner] misþétt ofna og af mismunandi fínum uppruna, allt frá þorpsvíni Strass, víngörðunum Stangl og Hasel, upp í fyrstu yrkja garðana [fr. 1 Cru, þ. Erste Lage] Gaisberg og Lamm.
Riesling frá Strass og fyrstu yrkja görðunum Gaisberg og Heiligenstein {sem hlýtur að vera helgisteinn á íslenzku}.
Chardonnay frá Gaisberg sem kom á óvart, óeikaður en þéttur og steinefnaríkur.
Rauða vettlinga [Roter Veltliner] frá Stangl sem undirritaður hafði ekki vitað að væru til {sem vín þ.e.a.s.}.
Öll vínin reyndust frískleg og ljúffeng og verðið viðráðanlegt miðað við gæði.

Því var afráðið að bjóða Vínbúðunum vínin frá Birgittu. Sýnishorna og efnagreiningarvottorða var aflað og öll línan send ÁTVR. Það var ekki að sökum að spyrja. Flest vínin voru valin í Sérflokk og eru nú fáanleg í Kringlunni.
Eitt vín, Grüner Veltliner Hasel, var sett í reynsluflokk og fæst því í Reynslubúðunum 4, Heiðrúnu, Kringlu, Skútuvogi og Hafnarfirði.
Gestgjafinn fjallaði um Grüner Veltliner Hasel og gaf því 4½ glas af 5 og hrósaði í hástert.


 Veldu síðu: <<  Til baka  46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56  Næsta síða  >>