Ber var stofnað árið 1999 til þess að flytja inn beztu vín Spánar {og reyndar heimsins - Hógværðin er aðalsmerki Bers}.
Eftir áralangan áhuga fyrir vínum og nokkrar ferðir til Spánar með fjölskyldunni uppgötvuðu forsprakkar Bers að mörg góð vín væri að finna á Spáni önnur en Rioja og Torres, að þeim ólöstuðum. Til að gera drykkjuna markvissari voru helztu vínbækur landsins lesnar, þ.á.m. Guía de Vinos Gourmet en Club Gourmet gefur árlega út bækur um vín, hótel og veitingastaði, e.k. neytendasamtök. Neðst á síðunni má sjá mynd af fremstu opnu téðrar vínbókar frá árinu 1998, árinu fyrir stofnun Bers.
Fyrstu vínin sem Ber flutti inn komu frá Viñas del Vero, sem er fánaberi héraðsins Somontano.
Illu heilli var víngerð Viñas del Vero seld risanum Gonzales Byass og því fluttist umboðið frá Beri til Bakkusar. Við óskum þeim góðs gengis.
Ber flytur inn öll helztu vín Ribera del Duero {nema kannski eitt}. Þ.á.m. Viña Pedrosa og Valduero auk Vega Sicilia og Pesquera. Ribera del Duero vínin þykja holdmikil, ávaxtarík og öflug en víngarðarnir eru í um 900m hæð yfir sjávarmáli, því eru nætur [í görðum Spánar] kaldar eftir heita daga en hitasveiflur innan sólarhringsins eru eitt lykilatriði vínræktar. Margir framleiðendur í nýja heiminum þurfa að blanda sýru út í vín sín vegna þess hve jafnheitt er t.d. í Ástralíu. Kalt er á Ribera del Duero heiðunum á veturna sem kemur sér illa fyrir skordýr og aðra óværu sem gjarna sækir á vínvið og því lítil þörf fyrir eitur o.þ.h.
Vega Sicilia, Pesquera, Guelbenzu og Valduero eru vín sem hver safnari getur verið hreykinn af.
Í frægri og sérvizkulegri vínnótnabók Michael Broadbent er Vega Sicilia eina spænska vínið sem kemst í hóp þeirra stóru frönsku frá Bordó og Búrgúndí: Chateau Petrus, Latour, Lafite og DRC.
Robert Parker, sennilega frægasti vínpenni (elskar blek) heimsins, gaf Pesquera mjög háa einkunn (en þó ekki 100 stig af 100 mögulegum andstætt almanna rómi), líkti við Petrus og setti þar með vínhéraðið Ribera del Duero á spænsku heiðunum norðan Madrid eftirminnilega á kortið.
Í Navarra við ána Ebro sem rennur gegnum Rioja, sem flestir Íslendingar ranglega álíta eina og/eða merkasta rauðvínshérað Spánar, ræktar Guelbenzu fjölskyldan stjörnuvínin Evo og Lautus, sem bæði eru dökk, öflug og eikuð. Oft á fremstu opnu spænsku vínbókarinnar.
Á einni mikilvægustu matvælasýningu Spánar, Alimentaria 2004, náðust samningar við hinn frábæra freyði- og rauðvínsframleiðanda Castillo Perelada. Cava Brut Reserva og Touch of Rosé eru fáanleg í ÁTVR. Í brúðkaupi Felipe de Borbon krónprins Spánar var boðið upp á bleika freyðivínið Cava Rosado.
Eftir ferð vina Bers á hina árlegu Karöflusýningu í Lundúnum sóttist Ber eftir umboði fyrir frábært lítið kampavínshús, Champagne Jacquesson, sem þykir eitt þeirra allra beztu og reyndar miklu betra en Ber hafði órað fyrir. Þrátt fyrir að vera nýbyrjað í sérverzlunum ÁTVR varð Brut Perfection / Cuvée 728 Brut fjórða mest selda kampavínið um jólin 2007. Síðan þá hefur hallað undan fæti og salan komin niður í fjölda táa á þeim annars ágæta fæti.
Til að standa undir þeirri sjálfsánægju að flytja inn beztu vín heimsins ákvað hin áræðna stjórn Bers að leita hófanna við einn frægasta vínframleiðanda Bandaríkjanna, Stag's Leap Wine Cellars, sem gerði garðinn frægan í umtöluðustu vínsmökkun allra tíma. Um árabil fluttum við inn vínin frá Hjartarhoppi en Bakkus og Kalli nöppuðu því. Gæðin hafa heldur sigið síðan, Þórði til ómældrar gleði.
Árið 1976 safnaði vínmeistarinn Steven Spurrier saman þeim Kaliforníuvínum sem hann taldi áhugaverðust og tefldi þeim fram á móti nokkrum af stærstu vínum Frakklands, rauðvínum frá Bordó og hvítvínum frá Búrgúnd. Um þær mundir þóttu Kaliforníuvín ekki merkileg. Gamli heimurinn mat þau nánast eins og litið er á "kassavín" í dag. En - til að gera langa sögu stutta - sigraði Stag's Leap Cabernet Sauvignon 1973 í flokki rauðvína og öllum að óvörum stóðu Kaliforníuvínin vel uppi á hárinu á þeim frönsku. Úrslitin ollu talsverðri úlfúð í Frakklandi. Einn dómarinn sagði sig meira að segja frá dómi.
Samsvarandi smökkun hefur verið endurtekin, m.a. 2006 á þrjátíu ára afmælinu. Niðurstaðan þá kom kannski enn meira á óvart en hin upphaflega. Kaliforníuvínin (upphaflegu árgangarnir) röðuðuðu sér í efstu sætin en 1976 hafði verið nokkurt jafnræði með frönskum og amerískum. Þarna þótti endanlega hrakin sú mýta að nýjaheimsvín gætu ekki geymzt eins vel og þau frönsku.
Fljótlega eftir Hjartarhoppið ákvað Ber að halda krossferð sinni áfram og tók að flytja inn vín frá tveimur öðrum stórhöfðingjum Kaliforníu, Parísarförunum Heitz Wine Cellar í Napa og Ridge Vineyards í Santa Cruz fjöllunum S-V af San Francisco.
Til að gæta einhvers jafnræðis flytur Ber inn nokkur af toppvínum Bordó, m.a. Chateau Latour, Ch. Margaux og Ch. Palmer.