Fréttir
26.04.2020 Smökkun Pesquera MXI 2016 2020.04.25 ~20:09.
 
Fyrirmælum Loga Geirs [Logi Geirsson] var náttúrulega fylgt eins og fyrsta myndin sýnir. Síðan var umhellt og loks hellt í glas. Myndin af glasinu sýnir áberandi fætur/gardínur, næstum eins og matarlím! Trúlega er það Samsöng að kenna eða þakka.


Ásýnd: Dökkrauðfjólublátt sem er einkenni Ribera del Duero. Beztu vínin halda þessum unglega lit mjög lengi, jafnvel í 20 ár!

Nef: Konfektkassi, sæt kirsuber, dökkt súkkulaði, karamellubrjóstsykurinn dæmigerði {sérstaklega kvöldið eftir}, smávegis sviðið greni {einkenni Pesquera} og vottur af kryddi, tarragon?

Tunga: Feit og þykk en fersk byrjun, munnfylli af mjúkum tannínum, kirsuber, smá appelsína og þroskuð bláber. Löng ljúf ending. Stíllinn er svolítið hægribakkalegur, gæti minnt á heilagan Emil og Jón, með góðum vilja.

Ritari er veikur fyrir sveit, jafnvel fjóshaugi en hér finnst ekki vottur af slíku, ritarafrú til ómældrar ánægju.

MXI er því dálítið óvenjuleg Pesquera, sennilega með vitund og vilja dætradætranna en líklega ekki Alejandrós?

Fyrir nokkrum árum var mikið talað um spænsku stórvínin eða "vinos de alta expresion". Hugtakið er umdeilt en venjulega er átt við gæluverkefni hverrar víngerðar, nútímaleg, kraftmikil vín. Oft fá þau afburðaeinkunnir hjá Pennanum og fleiri dómurum. Nokkur af kraftmestu Rioja-vínunum teljast til þessa flokks og RdD-vín eins og Alión og Valduero 6 ára Reserva Premium. MXI er kandídat.




 Veldu síðu: <<  Til baka  14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24  Næsta síða  >>