Fréttir
23.12.2019 Pesquera MXI
 
4 ungar frænkur fengu það verkefni að gera nútímalegt og fínlegt Pesquera-vín, en vín frá héraðinu Ribera del Duero á heiðunum norðan Madrídar þykja oft anzi stórskorin.
Eða eins og Steingrímur Sigurgeirsson skrifaði einu sinni í Málgagnið:
"Rauðu risarnir frá Ribera del Duero eru eins og Rioja-vín á sterum".
Dr. Einar Thoroddsen andmælti þessu harðlega og fullyrti að vínin væru falleg og rétt sköpuð þótt þau væru stór og stælt.


Frænkurnar 4 eru allar barnabörn Alejandrós Fernández stofnanda Pesquera og eins helzta áhrifamanns spænskrar víngerðar undanfarna áratugi.
Um miðjan níunda áratuginn uppgötvaði Robert Parker {Penninn sem elskar blek} Ribera del Duero og gaf Pesquera toppeinkunn og kallaði Petrus Spánar og kom þar með héraðinu á kortið með tilheyrandi áhrifum á verð.
Á allt annað en augljósan hátt stendur MXI fyrir tvo skika [10 og 11] í einum bezta víngarði RdD í 800-900 metra hæð á Pesquera-fjalli. Eins og fram kemur á flöskumiða voru beztu tunnur árgangsins valdar í þessa fyrstu útgáfu MXI.
Vínið er dökkfjólublátt með sterkum ilmi af svörtum og rauðum berjum, kryddi og mildri miðlungsristaðri eik {oftast er eik heldur meira ristuð eða "medium well"}. Bragðið er þétt, ferskt og langt. Kraftmikið vín en enginn ógurlegur bolti.
Hentar með öllu kjöti, kannski bezt með lambi og svíni en gengur örugglega með léttari villibráð.
MXI fæst aðeins í eðalVínbúðinni Heiðrúnu í takmörkuðu magni.
Hlaut tvöfalt gull, mesta heiður, á einni aðalvínsýningunni í austurlöndum, China Wine and Spirits Awards.


 Veldu síðu: <<  Til baka  19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29  Næsta síða  >>